Heilbrigðisskoðanir

Allar heilbrigðisskoðanir fyrir flugið eru samkvæmt reglum Flugöryggisstofnunar Evrópu - European Aviation Safety Agency - EASA (1178/2011)

Þegar þú kemur í læknisskoðun þarftu alltaf að framvísa:

  • Persónuskilríkjum (vegabréfi eða ökuskírteini). Athugið að Flugmenn þurfa að mæta með vegabréf.
  • Síðasta heilbrigðisvottorði (nema þú sért að koma í fyrsta skipti)

Þú þarft einnig að hafa með þér gleraugu og linsur sem þú kannt að nota og geta gefið þvagsýni á staðnum

Þú þarft að upplýsa um alla heilsufarssögu þína frá fæðingu og einnig svara nokkrum spurningum varðandi heilsufar foreldra og systkina. Upplýsa um alla lyfjanotkun frá upphafi og núverandi. Hafa upplýsingar um lyfjaheiti og skammta með í skoðunina.
Upplýsa um notkun tóbaks og áfengis o.fl.

Þú þarf að svara öllum spurningum samviskusamlega og engu leyna.
Ef rangar upplýsingar eru gefnar eða einhverju leynt getur það valdið réttindamissi.

Fluglæknir gefur ekki út heilbrigðisvottorð og vísar málinu til umsagnar Samgöngustofu, ef umsækjandi hefur sögu um (eða er með):

  • Sykursýki sem þarfnast lyfjameðferðar.
  • Hjartaöng/kveisu (Angina pectoris).
  • Kransæðasjúkdóm, sem hefur verið meðhöndlaður eða ef ekki, gefur einkenni sem skipta máli.
  • Kransæðastíflu.
  • Hjartagangráð.
  • Geðsjúkdóm.
  • Ofvirkni-athyglisbrest.
  • Persónuleikatruflun, sem er það alvarleg að hafa ítrekað valdið vandræðum.
  • Áfengis- eða lyfjavandamál ( háður þeim eða misnotar).
  • Flogaveiki.
  • Truflun á meðvitund án fullnægjandi skýringar á orsök.
  • Tímabundna truflun á taugastarfsemi án fullnægjandi skýringar á orsök.
  • Annað, sem krefst sérstakrar meðferðar Samgöngustofu.

Allir sjúkdómar eða fötlun, sem umsækjandi kann að hafa, eru metnir sérstaklega með tilliti til flugöryggis og þurfa ekki endilega að leiða til þess að heilbrigðisvottorð fáist ekki gefið út.

Gott að vita

  • Þú getur komið 45 dögum fyrir gildistímann á heilbrigðisvottorðinu án þess að gildistíminn breytist.
  • Flugmenn og flugumferðarstjórar verða alltaf að vera með gilt heilbrigðisvottorð til þess að mega sinna störfum sínum.
  • - Ef einhverjar spurningar koma upp vegna heilsu þinnar tengdar flugi hafðu þá samband við okkur og við svörum þér við fyrsta tækifæri.
  • Ef vandinn er bráður þá má hringja í Samúel yfirlækni hvenær sem er í síma +354-690-6049 til að fá ráð og leiðbeiningar varðandi heilsufar og flugöryggi.
  • 1. flokks skoðun atvinnuflugmanna (ATPL, CPL) er ítarleg heilbrigðisskoðun. Mælt er með að byrja á henni áður en nám til atvinnuflugs hefst til þess að vera viss um að standast allar heilbrigðiskröfur.
    • Gildir í 12 mánuði fyrir atvinnuflugmenn í einstjórnarloftförum þar til þeir ná 40 ára aldri, en eftir það gildir vottorð í 6 mánuði
    • Gildir í 12 mánuði fyrir atvinnuflugmenn í fjölstjórnarloftförum þar til þeir ná 60 ára aldri, en eftir það gildir vottorð í 6 mánuði
    • Gildir í 12 mánuði fyrir flugvélstjóra
  • 2. flokks skoðun er fyrir einkaflugmenn(PPL) og flugnemar þurfa að hafa gilt 2. flokks heilbrigðisvottorð til þess að geta flogið solo. Fisflugmenn og svifflugmenn þurfa líka að hafa 2. flokks heilbrigðisvottorð á Íslandi eins og er.
    • Gildir í 60 mánuði til fertugs, í 24 mánuði til fimmtugs og í 12 mánuði eftir það
    • Um fisflugmenn gildir grein 1.2.5.2.3.1 við reglugerð nr. 400 frá 2008.
  • 3. flokks skoðun er fyrir flugumferðarstjóra (ATC) og er sambærileg við 1. flokks skoðun. Þeir fá 3. flokks Evrópu heilbrigðisvottorð.
    • Gildir í 24 mánuði til fertugs og í 12 mánuði eftir það.
  • Cabin crew skoðanir eru ekki eins viðamiklar og heilbrigðisvottorð gildir í 5 ár óháð aldri.
  • Flugvéltæknar og flugumsjónarmenn þurfa ekki heilbrigðisvottorð.

Aldurstakmarkanir

Um flugmenn gildir eftirfarandi:
Flugmaður sem er orðinn sextugur má ekki starfa sem flugmaður í flutningaflugi nema:

  • Í fjölstjórnaráhöfn (fram að 65 ára)
  • Flugmaður sem hefur ná 65 ára aldri má ekki starfa sem flugmaður í flutningaflugi.

Um flugumferðarstjóra gildir eftirfarandi:

  • Flugumferðarstjóri má starfa til 60 ára aldurs
  • Hægt er að framlengja starfsleyfið til 63 ára aldurs

Hvað er skoðað í 1. og 3. flokks skoðunum í upphafi?

Samkvæmt gildandi reglugerð varðandi heilbrigðisvottorð flugliða skulu nýir umsækjendur meðal annars gangast undir eftirfarandi skoðanir/rannsóknir.

  1. Skoðun fluglæknis á Fluglæknasetri, sem fer yfir heilsufarssögu þína og gerir almenna líkamsskoðun. Hæð og þyngd mæld. Heyrn og sjón athuguð. Litasjón könnuð. Tekið er hjartalínurit, gert er öndunarpróf (spirometria) og þvagsýnið rannsakað.
  2. Háls- nef- og heyrna skoðun fer frá hjá Háls nef og eyrnalæknum Dómus. Urðahvarfi 8, s: 5631010.
  3. Skoðun augnlæknis er ítarleg sjónskoðun og Þórður Sverrisson augnlæknir hjá Augnlæknum Reykjavíkur, Hamrahlíð 17, 105 R. sér um þessar skoðanir en hann er fluglæknir.
  4. Blóðrannsókn á rannsóknastofu Landsspítalans jarðhæð Hringbraut eða jarðhæð í Fossvogi fæst gerð alla virka daga kl 08-15. Þú fært beiðni hjá okkur og þarft að vera fastandi í 8 klukkustundir.

Athugið að gott er að klæðast þægilegum fötum, sem auðvelt er að fara úr fyrir skoðunina.

Athugið að allar rannsóknir og niðurstöður þeirra eru hluti af sjúkrasögu þinni og birtast í rafrænni sjúkraskrá og er þar aðgengileg læknum sem þú kannt að leita til.

Athugið að það getur tekið nokkurn tíma, stundum daga og vikur, að fá tíma fyrir allar þessar rannsóknir og fá niðurstöðurnar.

Yfirlæknir Fluglæknasetursins þarf svo að fara yfir allar niðurstöður og fullvissa sig um að allt sé innan eðlilegra marka. Hann skoðar líka sjúkraskrána þína áður en hann gefur út heilbrigðisvottorðið. Allt þarf að vera lagi áður en heilbrigðisvottorðið er útgefið.

Endurnýjun á 1. og 3. flokks heilbrigðisvottorði er viðaminni en fyrsta skoðunin og er gerð á Fluglæknasetrinu og fluglæknirinn, sem skoðar þig, gefur út heilbrigðisvottorðið strax að lokinni skoðun ef allt er í lagi.

2. flokkur

2. flokks skoðanir/rannsóknir eru viðaminni og eru gerðar á staðnum og ef allt er í lagi gefur fluglækninn sem skoðar þig út heilbrigðisvottorð strax að lokinni skoðun ef allt er í lagi.

Cabin crew

Cabin crew skoðanir/rannsóknir eru líka gerðar á staðnum og heilbrigðisvottorð gefið út strax að lokinni skoðun ef allt er í lagi.